þriðjudagur, 31. júlí 2007

Lag í spilun: Ekkert

Vúhú! Fríið mitt er formlega hafið. Stakk af fyrr úr vinnunni, enda margt sem þarf að fjárfesta í áður en maður fer hringinn í kringum Ísland! Hlakka svo til ... þetta er eitthvað sem ég þarf á að halda ... almennilegt frí ... var arfalöt í vinnunni af tilhlökkun.
Eftir að við komum heim tekur við ca. vika af vinnu og síðan hefst bara skólinn.
Pétur, sem er að vinna með mér, fór hringinn um daginn og sagði mér fyrst og fremst að tékka á Ásbyrgi - og af því að maður er búinn að læra svo mikið um myndun þess þá er það tilvalin hugmynd. Síðan nefndi hann Dettifoss, Kárahnjúka, Helguvík, Atlavík og Hallormsstaðaskóg.
Önnur möguleg stopp: Hveragerði ;), einhver staður undir Vatnajökli sem Anna Stella tengist eitthvað, Djúpivogur að heimsækja Agnesi, Seyðisfjörður af því að hann er fallegur, Vopnafjörður og Fagridalur (vííí), Akureyri (Versló), Siglufjörður (sumarbústaðurinn hennar ömmu og einhverjir ættingjar mínir), Staður í Hrútó að hitta Báru, Ísafjörður að tékka á Minney...

Farin að kaupa camping-stuff :Þ

Sælar!

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Lag í spilun: Tenacious D - Papagenu (He's My Sassafrass)

Þarna er ég að vinna....
....og ég og Svenni yfirmaður þurftum að fara efri leiðina til þess að komast inn á svæðið í morgun. Hví? Af því að fjórar manneskjur lágu undir tveimur bílum sem var lagt þvert yfir aðalveginn inn á virkjunina. Markús, Egill, Bobi og Ívar þurftu hins vegar að leggja við aðalveginn af því að fleiri mótmælendur voru búnir að hlamma sér á efri veginn OG efri efri veginn. Síðan var þess apaköttur uppi í krana ... stóð þar við hliðina á "Vopnaveita Reykjavíkur?" fánanum...

Nú er ég ekkert rosalega hrifin af stóriðjustefnunni sjálf og hef því ekkert á móti mótmælendum. Ef fólk ætlar að hafa einhver áhrif þarf að ráðast á grunninn... virkjunin er bara the icing on the top. Hvað olli því að virkjunin var byggð? Orkuþörf. Hvað olli orkuþörfinni? Ég veit ekki hvort það eru álver og slíkt eða bara meiri orkunotkun á hverja manneskju. Sé það hið síðarnefnda, flækjast málin því þá þurfa mótmælendurnir að troða sér inn í hausa almennings og staðreyndin er bara sú að flest öllum er drullusama! Séu það álver, hins vegar, veit ég ekki hvort að þau eru grunnurinn eða ríkið, pólitíkusar, skuldir...

En annars er ég ekkert sérstaklega hrifin af OR sjálf... svoddan þurrkuntur ...

sunnudagur, 22. júlí 2007

Lag í spilun: QOTSA - Quick and to the Pointless

Mér leiðist.
Hef samt alveg stöff að gera.
S.s. taka upp frumsamda tónlist :Þ Þorgils lánaði mér tækin sín enda gítarinn hans brotinn.... Síðan get ég horft á alveg helling af anime sem ég fékk hjá honum. Ég veit, ég veit - en þrátt fyrir að vera kjánalegt á köflum er þetta blessaða anime nokk skemmtilegt :Þ
Ég hef hægt og rólega komist að því í gegnum tíðina að ég fíla QOTSA í tætlur. Byrjaði allt með Songs for the Deaf (þökk sé Arnari), fór þaðan í Lullabies to Paralyze og núna nýlega uppgötvaði ég Rated R (þökk sé Þorgils) og Era Vulgaris er geðveikur diskur (svo geðveikur að ég keypti mér hann í gær, dýrum dómi í Skífunni). Ætla að athuga fyrsta diskinn þeirra núna.
Langar að allir viti að ég fíla þetta band - sem merkir að mig langar í QOTSA bol :Þ
Langar líka í bol með mynd af Dæjanum á, til þess að halda minningu hans uppi þegar ég fæ mér nýjan gamlan bíl.
Bíð í ofvæni eftir því hvort karl faðir minn hafi fundið einhvern bíl fyrir mig - hann sagðist ætla að spyrjast fyrir um helgina og hafa samband við mig eftir hana. Sagði honum að ég kærði mig ekki um Aygo, Yaris, Hyundai og Subaru en gleymdi að segja honum að ég vil 5 dyra, beinskiptan og sparneytinn bíl.
Var að fatta að það er vika í hringferð okkar Önnu Stellu.
Var að fatta að ég á eftir að beila á fluginu til Boston.
Var að fatta að það eru tæpur mánuður eftir að vinnunni.
Var að fatta að það er mánuður þar til skólinn byrjar.
Var að fatta að ég er í stjórn og vinnu með skólanum.
Var að fatta að ég þarf að eiga tíma fyrir félagslíf.

Allavega.

Bæ.

fimmtudagur, 19. júlí 2007

Lag í spilun: Ekkert

Og hver segir að bílar hafi ekki sál????
Dæinn minn var ekki par sáttur með það að ég hafi verið að skoða aðra bíla.
Þegar ég var að keyra upp að Rauðavatni í dag var rigning og rúðuþurrkurnar voru í gangi á lægstu stillingu.
Allt í einu bara furumfumf og rúðuþurrkan fauk af! Og það mín megin. Með festingunni allri! Bara bjánalegt prik eftir!
Þegar ég síðan settist inn í bíl eftir vinnu í dag sá ég blómvönd í dvergastærð undir vanskapnaðinum.
Ég fékk fyrir hjartað. "Neih! Nú hefur einhver stolið hátölurunum mínum og skildi blómvönd eftir í kaldhæðni!", hugsaði ég og stakk höndunum undir sætin á bílnum til að tékka. Fjúff, þeir lágu þar í mestu makindum.
"Var eitthvað á bílnum þínum í dag?", spurði Þorgils mig þegar ég talaði við hann í símann áðan :Þ

En já, það er semsagt bara ein rúðuþurrka eftir. Megasvalt....

eins og þessi hérna:

http://kassi.is/cars_detail.php?ID=6197

Ókei, hann er bara 3 dyra og það fylgja engin vetrardekk - en ótrúlega lítið keyrður og ódýr :) I wanna check it out ....

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Lag í spilun: Ekkert

...og enn af bílaævintýrum Marínar...
Elsku besti Dæinn minn mun líklegast gefa upp öndina í vetur og af því að það barasta borgar sig ekki að laga hann þá hef ég verið að dunda mér við að skoða bíla í blöðunum.
Nú er ég kröfuhörð, nísk og kæri mig ekki um að skulda eina einustu krónu og því er þetta aðeins flóknara en ella.
Ég, mamma og Benni sáum Suzuki Swift í blaðinu, hvítan með skotti, '93, keyrður 97.000 km, nýbúið að skipta um allar reimar og á 100þús kall. Benni hringdi í manninn og hann sagði bílinn einungis hafa átt tvo kvenkyns eigendur og væri í góðu standi, nagladekk væru einhvers staðar til og olískiptingar hefðu verið reglulegar.
Því var brunað í Garðabæ, öll fjölskyldan, kl. 23, og bíllinn skoðaður.
Hann var aðeins farinn að ryðga, sílsið (hvað sem það nú er) var alveg farið (að sögn Benna, sem leit undir bílinn), síðan þegar við prufukeyrðum hann þá heyrðist prumpuhljóð í pústinu og þegar ég kveikti á miðstöðinni komst ég að því að "beint í fésið"-stillingin var biluð.
Nei, takk.

Lag í spilun: Ekkert

Nú er ég búin að vera vinnandi við byggingu og lagfæringu kæliturna síðan ég byrjaði í Altak. Veit ekki alveg nákvæmlega hvaða hlutverki þeir gegna, en það kemur síun á heita vatninu úr jörðinni eitthvað við. Skítnum sem turnarnir sía úr vatninu hef ég kynnst vel síðast liðna viku, við erum búin að vera að rífa upp filmpexið til að skipta um bolta og plötur undir því. Ef að eitthvað jobb er hellaðra þá endilega látið mig vita.
Líklegast mun Altak ekki byggja fleiri kæliturna. Hérna er ástæðan...
Ulrich Hirz (Uli) hefur verið milliliður ákveðins fyrirtækis í Þýskalandi og Altaks við byggingu kæliturna síðan 1999. Ekki fyrir margt löngu keypti fyrirtæki að nafni SPX þetta fyrirtæki og síðan þá hefur allt farið fjandans til. Bið í tvo mánuði eftir boltum, og síðan senda þeir vitlausa, og þegar reynt er að rukka SPX fyrir boltana svarar enginn símanum og þetta fyrirtæki heldur ekki utan um neina reikninga og kemur illa fram við Uli, kæliturninn í Hellisheiðavirkjun er 2 mánuðum á eftir áætlun og barasta allt hefur gengið á afturfótunum við byggingu hans.
Uli er búinn að senda SPX uppsagnarbréf og yfirgefur svæðið þegar kæliturninn í Hellisheiðavirkjun er tilbúinn.
Djöfull á SPX eftir að tapa á að missa viðskipti sín við Altak.
Þegar kæliturnarnir í Hellisheiðavirkjun og Svartsengi eru tilbúnir verður enginn svona víðtæk vinna eftir hjá Altak. Það verður bara smiðjuvinna, sem er víst leiðinleg að sögn Markúsar.
Síðan var ég að frétta að það væri gríðarleg þörf fyrir fólk með meirapróf uppi í virkjun :Þ Fólk með slíkt próf væri tekið opnum örmum ... það gerir það ansi freistandi að taka meiraprófið. En ég held að það sé of mikið mál að taka það með skólanum í vetur
Skóli, vinna, stjórn og félagskapur. I think that's more than enough.
Síðan var ég að pæla hversu mikið það er sem maður á eftir að gera áður en aldurinn færist yfir.
  • Fara í heimsreisu
  • Búa í útlöndum og kynnast annarri menningu (Japan, Ástralíu, Afríku eða Ameríku)
  • Fara á alls konar hátíðir; Hróarskeldu, Sunrise Festival í Póllandi, Love Parade í Þýskalandi and so on.
  • Surfing, fallhlífastökk, teygjustökk og þvíumlíkt.
  • Læra einkaflugmanninn, taka meiraprófið, læra bifvélavirkjun, læra ýmis tungumál, læra að drifta almennilega, læra einhverja bardagaíþróttina, endurvekja teikniáhugann minn og margt fleira sem mig langar að læra.
  • Eignast svartan Porsche Carrera 1986 með spoiler ;)
  • Síðan langar mig að prófa að vera í her; s.s. norska hernum.
  • Og ekki má gleyma allri tónlistinni sem ég á eftir að hlusta á, öllum kvikmyndunum sem ég víst VERÐ að sjá (The Goonies og Ichi the Killer t.d.) og öllum bókunum sem mig langar að lesa (Harry Potter 5, 6 og 7 t.d.).

Allt þetta kostar gríðarlegan pening og tíma og staðreyndin er nú barasta sú (eins og ég hef verið að kynnast) að tíminn flýgur og það ansi hratt.


föstudagur, 13. júlí 2007

Lag í spilun: John Lennon - Working Class Hero

Jæja, loksins mundi ég eftir því að taka myndavélina með mér....


Séð upp úr einum strompinum í kæliturni 1. Þvílíkir þyrluspaðar...
Steven, sonur Uli. Hann kann ekki mikið í ensku - enda kennsuaðferðir enskukennara hans miður góðar. Það eina sem hún lætur þau gera er að þýða texta. 16 ára Þjóðverji sem á kærustu og er alltaf með þvílíka teknótónlist í eyrunum. Og talar við mig þýsku eins og ég sé altalandi :Þ "Umm, das habe ich nicht versteht :S", finnst mér ég alltaf vera að segja. Það er samt ótrúlega hresst að vinna með honum.
Hérna er búið að rífa drift eliminatorana upp til að komast að boltunum sem skipta þurfti um. Það sést smá í þá og málmplötunar... í bitasamskeytunum fyrir miðju á myndinni.
Það er svoooo erfitt að rífa þetta upp. Sveeeeiitt.

Hérna höfum við kæliturn 2 í öllu sínu veldi. Við erum næstum því búin að skipta um alla boltana í þessum :)

Horft niður stigann á kæliturni 1, reynir þvílíkt á upphandleggsvöðvana að klífa hann. Síðan er mannlyftan þarna fyrir neðan. Mér finnst frábært að stýra henni. I feel so powerful :Þ

Tvíburaturnarnir þarna. Ömurlegur hávaðinn sem kemur úr þeim - sérstaklega ef báðir eru í gangi.

Náttúran er skammt undan :) Skrapp í göngutúr þegar ekkert var að gera einn daginn og þarna eru mörg tækifæri fyrir jarðfræðilegar pælingar.

Þetta er kæliturn 3, sem við erum búin að vera að bisast við að byggja. Úr honum datt ég næstum niður 8 metra :Þ

Haha. Þarna glyttir í græna gáminn (þessi sem er nær). Hef eytt ófáum stundunum þarna inni. Setja saman filmpexið, drift eliminatorana, málað og sett saman bolta ... svo eitthvað sé nefnt. Gallarnir okkar eru geymdir í rauðbrúna gáminum og skrifstofa Uli er í hvíta gáminum.

Crash course í að skipta um bolta. Stig 2 (setja nýjan bolta í) og 3 (herða boltann). Gleymdi að taka myndir af stigi 1 (fjarlægja ryðgaða boltann). Hérna eru verkfærin sem ég nota, ofan á dokum sem koma í veg fyrir að hamagangurinn í manni beygli filmpexið (dokarnir eru ofan á því, eins og sjá má).

Hérna er ég búin að setja gamlan bolta í ónotað gat fyrir neðan og lyfti þessum bita upp til þess að koma nýja boltanum í.

Vííí. Það tókst!

Síðan þarf ég að jugga hann inn og í gatið hinum megin.

Komið!

Þá þarf ég að lyfta þessum bita til að koma boltanum í gatið á honum.

Síðan þarf ég að hamra í blindni hinum megin.

Sonna!

Þá set ég þynnuna á og róna. Af því að það er ekkert pláss fyrir skrallið þarna megin þarf ég að halda rónni fastri með lyklinum...

...og skralla hérna megin. Ég er komin í vettlinga ... enda of oft búin að brenna mig á að reka höndina í bitana. Öll út í sárum á höndunum.

Þá er þessi búinn .... næsti bolti....

fimmtudagur, 12. júlí 2007

Lag í spilun: The Doors - Spanish Caravan

Nágrannaerjur er eitthvað sem margir kannast við....
Solla (ská á móti, til vinstri) hringdi einhvern tímann í litla bróður minn og skammaði hann í símann. Mömmu var misboðið og fór og skammaði hana :Þ
Svanlaug (beint á móti) skammar víst son sinn, Bjarka, aldrei heldur beinir hún skömmunum að öllum krökkunum. Bjarki er leiðinlegasta barn sem ég veit um - ég hélt að eldri bróðir hans (Guðmundur) væri leiðinlegur og þoldi hann ekki á sínum tíma - en Bjarki toppar hann. Bjarki er btw 5 ára frekjudolla sem ræður öllu og hefur alltaf rétt fyrir sér. Mér hefur oft langað til að berja hann í kássu. Síðan leggur alltaf pakkið sem kemur í heimsókn til Svanlaugar beint fyrir framan hjá þeim svo afar erfitt er fyrir okkur að bakka og ekkert þýddi að tala við Svanlaugu.
Fólkið ská á móti til hægri (er flutt núna - veit ekkert um nýju íbúana) var fínt en átti (á - hún er nú ekki dáin) þroskahefta dóttur (9 ára) sem var ótrúlega pirrandi. Kom inn til okkar eins og henni sýndist og læti.
Fólkið við hliðina á, Gulli og Kristín, voru fín til að byrja með (hann hjálpaði mér að læra fyrir samræmda stærðfræðiprófið í grunnskóla) en með tímanum komst mamma að því að þetta er fólk fullt af yfirlæti, tillitsleysi og frekju. Enn eitt dæmið um það varð og er í dag. Þau eru að halda partý og láta engan vita og segja ekki gestunum að dreifa sér í göturnar í kring. Gatan er nú ekki stór og er full af bílum og íbúarnir fá varla stæði sjálfir! Það er ótrúlega pirrandi að geta ekki gengið að vísu stæði í sinni eigin götu! Ég er einhvers staðar úti í kanti á mjög vondum stað. Síðan báðu þau víst frekjulega um að fá borðið okkar og stólana lánaða. Djöfull var mamma pirruð og ég líka! Mig langar að fara yfir til þeirra og biðja þau ákaflega kurteisislega um að taka meira tillit til nágranna sinna...

Día , frænka hans Benna (fósturpabbi minn), býr hérna á horninu ásamt manni sínum og börnum. Mamma venst ekki hversu uppáþrengjandi hún er. Valsar inn eins og hún eigi heima hérna og tekur 20 tyggjó og treður upp í sig. Hún meinar ekkert illa, hún er ofboðslega góð manneskja en eins og ég segi, uppáþrengjandi. Mömmu verður að líka við hana, enda frænka Benna.

Fólkið á móti Díu er fínt (og vaðandi í peningum).

Síðan eru krakkarnir í götunni allir góðir vinir :Þ Mamma þolir ekki að þau skuli alltaf leika sér í okkar garði - allt grasið niðurtrampað og ógeðslegt.


Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að vinna á sunnudaginn. Mig grunar að sumir eigi eftir að sofa til svona 16 enda að vinna alla nóttina ;)

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Lag í spilun: The Who - Substitue

Í gær varð ein af mínum martröðum að veruleika.
Ég læsti lyklana inni í Dæjanum og það í vinnunni - langt í burtu frá aukalyklunum.
Pólverjarnir hlógu að mér - sérstaklega Radek. Egill hló reyndar líka sem og Steven, og ekki má gleyma mér sem hló vandræðalega að fávitaskapnum í mér.
Það kom ekki annað til greina en brjótast inn í bílinn minn. Ég fór að leita að mjóum stöngum, beyglaði þær og tróð þeim ofan í hurðina og ætlaði að ýta takkanum upp. Steven reyndi eitthvað að hjálpa mér en gekk ekkert betur en mér.
Hálftíma seinna kemur Bobi, of seinn úr mat, sér mig og Steven bisast við að brjótast inn í bílinn, hristir hausinn og fer að hlæja. Labbar að okkur, beyglar meira upp á járnið, treður járninu ofan í og opnar. Eins og maðurinn hafi aldrei gert annað í lífinu!
Fyndið að maðurinn sem að hinir Pólverjarnir hata komi mér alltaf til bjargar. Mér finnst hann fínn :Þ
...þá veit maður hvað Bobi hafðist við úti í Póllandi... Grand Theft Auto: Poland

sunnudagur, 8. júlí 2007

Lag í spilun: Ekkert

Dæinn meikaði keyrsluna til Hallgeirseyjar og það án vandkvæða.

Töffarabíll.

föstudagur, 6. júlí 2007

Lag í spilun: Blur - Out of Time

Ójá, krakkar mínir, ójá!
Hefðuð átt að sjá mig inni í bíl áðan að testa NÝJU GRÆJURNAR MÍNAR!
Já, ég fann draumagræjurnar mínar í Ormsson og af því að Boston ferðin er í fokki og tollurinn hefði ábyggilega verið hár hefði ég keypt bíltækin úti, þá skellti ég mér á þetta allt saman.
Pioneer DEH3900MP með hring-hækka/lækka takka og AUX-input, eins og ég vildi :Þ
Og hátararnir sem ég var búin að ákveða að mig langaði í í Ormsson í gær voru búnir þannig að ég fékk prufuhátalarana frammi í búð á afslætti. Pioneer 200W, 3-way og nokkuð vítt tíðnisvið :)

Og allt undir 30.000kr!

Fór í Múlaradíó í dag (frí ísetning) og drengurinn fölnaði þegar ég sagði honum að bíllinn væri Daihatsu Charade 1988 - enda hélt hann að um væri að ræða eldri gerð af Daihatsu. Djöfull var hann feginn þegar hann sá bílinn minn.

30 mínútur og voilá! Græjurnar komnar í og það sem meira er, hann lagaði (snertingin við jörð var í einhverju fokki) og skipti um framljósaperur í bílnum.

Og ég var eins og hálfviti í bílnum áðan að prufa tónlistina mína. Skríkti og hló af gleði.

mánudagur, 2. júlí 2007

Lag í spilun: Smashing Pumpkins - Perfect

Ég fór á


með Þorgils, í boði Þorgils, í gær.

Fór inn á Nasa klædd skelinni minni og var í henni meðan Severed Crotch spiluðu, þrátt fyrir það að þeir hefðu alls ekki verið slæmir. Þótti skondið að horfa yfir (var á öðrum pallinum) samtaka hár þeytast upp og niður. Sá einnig vel yfir moss pittinn og fannst það líka nokkuð kómískt.

Þegar Momentum byrjuðu að spila var ég byrjuð að klæða mig úr skelinni minni og var lúmskt farin að dilla mér við tónlistina - það var samt sjúklega erfitt að finna taktinn hjá þeim.

Þegar Forgarður helvítis byrjuðu stökk Þorgils niður á gólf, Heiða (Unun-Heiða) missti sig við hliðina á mér, smitaði mig og ég afklæddist skelinni minni og fór að slamma. Söngvari Forgarðs helvítis var ótrúlega skemmtilegur :)

Fór niður á gólf þegar Cannibal Corpse byrjuðu og hélt mínu striki :Þ Leit ábyggilega gífurlega kjánalega út, einhver lítill dvergur í kjól yfir gammosíur úti í horni að slamma...

Þegar farið var að líða undir lok tóku Cannibal Corpse Pit of Zombies og það varð allt brjálað í moss pittinum. Ég tók eftir gaur sem hafði það fyrir leik að kýla annað fólk í pittinum. Í þriðja skiptið hitti hann rangan gaur á kjammann - hann sneri sér við, tók í hálsmálið á honum og ruddi honum upp að handriðinu - ég rétt náði að smeygja mér undan en ekki mikið meir. Fékk hluta höggsins, sem flaug í fésið á kýli-gaurnum, í ennið á mér :D Sjúklega gaman!

Síðan fékk Þorgils að heyra mig öskra smá... veit ekki hvort öskrið hann fékk að heyra. Djúpa karlmannlega eða kvenlega :Þ Þau eru bæði jafn kjánaleg hvort eð er...

Eníhú, þetta var suddalega gaman.... og djöfull var maður sveittur þegar maður kom út. Sussubía.